Rafræn viðskipti

GLN (EAN) kennitala - (GLN - Global Location Number)  

GS1 kerfið er alþjóðlegt númerakerfi til auðkenningar á vöru og þjónustu og birtist gjarnan í formi strikamerkinga á umbúðum.

Einn hluti GS1 kerfisins er að auðkenna staðsetningar með eingildu númeri. Fyrirtæki og stofnanir eða einstaka deildir og/eða einstaklinga innan þeirra eru merktir með alþjóðlegu auðkenni með sambærilegum hætti og gert er með vörur.

Með þessum hætti er hægt að nálgast upplýsingar s.s. um heimilisfang, símanúmer, tengilið og greiðsluskilmála án þess að túlka þurfi númer viðskiptaaðila yfir í númer viðkomandi fyrirtækis. Þetta númer er í daglegu tali nefnt GLN kennitala en alþjóðlegt heiti er Global Location Number (GLN).

GLN kennitala kemur helst að notum þar sem notast er við sjálfvirkar skráningaraðferðir, eins og með strikamerkingum (GS1 - 128) og í EDI samskiptum. Með þessum aðferðum er algjör nauðsyn að einn samræmdur lykill sé notaður til auðkenningar á vöru, þjónustu, viðskiptaaðila og farmflytjendum. GLN kennitala er því mikilvægur liður í skilvirku ferli vöru og upplýsinga.

Helsti ávinningur af notkun GLN kennitölu í stað heimatilbúinna númera er:

  1. Engin tvö fyrirtæki, deildir innan þeirra, eða útibú hefur sama númer. Í þessu sambandi er hægt að  benda á annmarka þjóðskrár þar sem einn lögaðili hefur einungis eitt númer, burt séð frá þörf fyrir deildarskiptingu eða mismunandi útibú. Mjög mismunandi er hvernig fyrirtæki hafa leyst þetta vandamál í sínum gagnagrunnum.
  2. GLN kennitala er alþjóðleg þar sem fyrirtæki í yfir 90 löndum geta fengið úthlutað sínu alþjóðanúmeri.
  3. GLN kennitölu er hægt að nota í hvaða atvinnugrein sem er, þar sem þörf er fyrir að skiptast á upplýsingum, innan greinarinnar sem og á milli óskyldra greina.

GLN kennitala er 13 stafa númer sem ekki hefur annað gildi eða uppbyggingu eins og oft er að finna í heimatilbúnum númerakerfum. GLN kennitölukerfið mun því ekki springa" þegar upp kemur ófyrirséð þörf, eins og svo mörg dæmi eru um.