Strikamerkingar

EAN kerfin 

EAN vörunúmerakerfið tryggir að engar tvær vörur hvar sem er í heiminum fái sama vörunúmer. Númerin eru gjarnan táknuð með strikamerkjum til þess að tryggja öruggan vélrænan aflestur, t.d. þegar vara er seld í stórmörkuðum. Þetta þýðir að kaupmaður í Ástralíu getur nýtt sér strikamerki vöru sem hann hefur keypt frá framleiðenda á Íslandi án þess að eiga á hættu að önnur vara finnist með sama númeri og þar með sama strikamerki.

Strikamerkið er myndað með samsíða strikum og eyðum af misjafnri breidd. Hver tala í númerinu er táknuð með mismunandi samsetningu strikanna. Sérstakir strikamerkjalesarar (skannar) eru notaðir til að nema breidd strikanna með því að mæla endurvarp ljóss frá strikamerkinu. Gjarnan eru notaðir leysar sem ljósgjafar í skönnunum en tölvubúnaður sér um að breyta þessum upplýsingum í tölur. Þegar vörunúmerið hefur verið lesið er upplýsingum um vöruheiti, verð og e.t.v. fleira flett upp í búðarkassa eða tölvu sem tengt er skannanum.

Kostir strikamerkinga

Notkun strikamerkinga auðveldar allt upplýsingaflæði, allt frá framleiðanda vörunnar til notanda. Nákvæmni upplýsinganna er mun meiri og auðveldara er að koma við sjálfvirkni af ýmsu tagi í vörustjórnun og upplýsingaflæði. Helstu kostir strikamerkinga eru eftirfarandi:

Fyrir framleiðendur og dreifingaraðila:

 • Bætt birgðastjórnun.
 • Sjálfvirk skráning í framleiðslu.
 • Rekjanleiki, þ.e. unnt er að fylgjast með hvar varan er stödd á lager eða í flutningi.
 • Auðveldara er að fylgjast með eftirspurn.
 • Aukið öryggi í samskiptum við kaupendur.

Fyrir verslanir:

 • Auðveldara er að fylgjast með hvaða vörur hafa selst.
 • Betra eftirlit með rýrnun.
 • Aukið öryggi í afgreiðslu.
 • Lægri kostnaður við verðmerkingar.
 • Hagkvæmara birgðahald, minni fjárbinding, aukinn veltuhraði.
 • Betri nýting á hillurými.
 • Skemmri þjálfunartími starfsfólks.

Fyrir neytandann:

 • Hraðari afgreiðsla við kassa.
 • Betri upplýsingar um það sem keypt er.
 • Minni líkur á vöruvöntun.
 • Minni hætta á röngu verði.
 • EAN-númerin

EAN-númerin eru notuð til að auðkenna ýmsar vörutegundir og þjónustu. Þau eru útbreiddust á mat- og annarri dagvöru, en ýmsar aðrar vörutegundir eru nú merktar með þeim, t.d. fatnaður, byggingavörur og lækningavörur. EAN númer eru einnig notuð til þess að auðkenna fyrirtæki og vörusendingar.

Algengustu EAN-númerin eru 13 stafir að lengd. Fyrstu 2 – 3 tölustafirnir eru landsnúmer, sem segja til um í hvaða landi númerinu var úthlutað. Landsnúmer Íslands er 569 en dæmi um tveggja stafa landsnúmer er númerið 50 sem úthlutað er frá Bretlandi. Síðasta talan í öllum EAN númerum er ávallt staðfestingartala sem reiknuð er út samkvæmt ákveðnum reglum.

Stykkjavörunúmer (GTIN - Global Trade Item Number): 

Venjulegt stykkjavörunúmer er svokallað EAN-13 númer. Samanber hér að ofan byrja öll íslensk númer á 569 og þar á eftir kemur 6 – 8 stafa fyrirtækisnúmer til auðkenningar á framleiðenda eða dreifingaraðila. Þar fyrir aftan kemur vörunúmer vörunnar sem fyrirtækin sjálf úthluta. Almenna úthlutun EAN á Íslandi er 9 stafa lands- og fyrirtækisnúmer sem gefur fyrirtækjum möguleika til merkinga á allt að 1.000 vörutegundum en fyrirtæki með takmarkaðar þarfir til merkinga geta fengið röð fyrir allt að 10 vörutegundir. Fyrirtæki sem hafa þarfir umfram 1.000 númer geta jafnframt fengið fleiri númerum úthlutað.

Fyrirtækin bera ábyrgð á því að engar tvær vörur séu með sama vörunúmer. Meginreglan er sú að hver vörutegund fær sitt sérstaka vörunúmer óháð því hvort varan kostar það sama hjá framleiðandanum. Til dæmis kostar einn lítri af ís það sama, óháð bragði, en EAN-númerin eiga að vera mismunandi fyrir hverja tegund.

Þar sem þörf er fyrir minna strikamerki en EAN-13 er hægt er að fá úthlutað EAN-8 númerum, sem eru 8 tölustafir að lengd. Þessi númer eru ætluð til merkinga á vörum sem hafa lítið yfirborð og strikamerkið kemur til með að þekja meira en 20% af yfirborði þeirrar hliðar sem það er prentað á. Einungis 10 vörunúmer geta verið fyrir hvert fyrirtækisnúmer sem úthlutað er.

Vigtarvörunúmer (til notkunar innanlands):

Almennt kemur verð vöru ekki fram í EAN númerum. Undantekningin frá því eru svokölluð vigtarvörunúmer sem notuð eru á vörur með breytilegri vigt og kemur endanlegt verð vörunnar fram í númerinu. Númerin byrja ávallt á tölustafnum 2, næsti stafur þar á eftir segir til um fjölda aukastafa í verði og þar á eftir kemur númer framleiðanda og vörunúmer, alls 7 tölustafir. Næstu 5 tölustafir eru fráteknir fyrir verð en síðasti tölustafurinn er staðfestingartalan. Vigtarvörunúmerin eru eingöngu ætluð til notkunar innanlands en framleiðendum sem hyggja á útflutning á vörum með breytilegri vigt er bent á að hafa samband við skrifstofu EAN á Íslandi til þess að afla sér nánari upplýsinga.

Framleiðendur geta fengið úthlutað fyrirtækisnúmeri sem gefur möguleika á allt að 100 vörunúmerum eða 10 númera blokk sem gefur möguleika á allt að 1000 númerum.

EAN-númer fyrir bækur og tímarit:

Samkvæmt sérstöku samkomulagi við samtök útgefenda bóka og tímarita má nota ISBN og ISSN númer til þess að strikamerkja bækur og tímarit samkvæmt EAN kerfinu. Upplýsingar um ISSN og ISBN númer eru veittar af Landsbókasafni Íslands.

EAN-kennitala (GLN-Global Location Number):

EAN-kennitalan er 13 tölustafir að lengd og er notuð til þess að auðkenna fyrirtæki, einstakar deildir þess eða aðila innan þeirra. Hún nýtist vel í rafrænum viðskiptum, svokölluðum EDI viðskiptum, þegar til dæmis pöntun og reikningar eru sendir beint á milli tölva viðskiptaaðila. Einnig er hún notuð við merkingar á ytri umbúðum til að auðkenna sendanda og/eða viðtakenda vörusendingar. EAN kennitölum er almennt úthlutað sérstaklega fyrir hvert fyrirtæki og einingar þess en ekki í númeraröðum.

Serial Shipping Container Code:

Raðnúmer vörusendinga, SSCC, er notað til þess að auðkenna flutningseiningar, t.d. vörubretti. Með því má rekja nákvæmlega hvar hvert bretti eða önnur vörusending er stödd í flutningakeðjunni. SSCC númerin eru 18 stafir að lengd. Hafi fyrirtæki fengið úthlutað EAN-13 fyrirtækisnúmeri þarf ekki að sækja sérstaklega um heimild til notkunar á SSCC.