Útlit strikamerkja

Mjög margar mismunandi tegundir strikamerkja eru í notkun en GS1 hefur takmarkað þann fjölda strikamerkja sem þau nota fyrir númerakerfi samtakanna. Öll strikamerki eiga það sameiginlegt að tákna með dökkum strikum og ljósum bilum það númer eða texta sem lesa má neðan við merkið.

Strikamerki á smásölueiningar

EAN 13 strikamerki

EAN 8 strikamerki

UPC A strikamerki fyrir USA og Kanada 

Strikamerki á heildsölu- og flutningseiningar

EAN 128 strikamerki

ITF strikamerki fyri EAN 14 númer

Nýar gerðir strikamerkja

Einn ókostur, það sem kalla má, hefðbundinna strikamerkja er að þau taka töluvert pláss og því takmarkað hvaða upplýsingar má koma fyrir í einu merki. Á markaðinum er þörf fyrir strikamerki sem þurfa minna pláss, og hafa þær lausnir sem EAN býður upp á ekki hentað til að merkja til dæmis mjög litlar einingar. Á það til dæmis við um lítil lyfjaglös sem innihalda einstaka lyfjaskammta sem og ýmsa smáa hluti sem notaðir eru við framleiðslu á ýmsum rafeindabúnaði. Því hefur EAN í samvinnu við systursamtök sín í Bandaríkjunum, UCC (Uniform Code Council), gengist fyrir hönnun á nýrri gerð strikamerkja sem krefjast mun minna pláss en hefðbundin merki. Þessi vinna hefur leitt til lausnar sem skipta má í tvennt. Annars vegar eru merki sem nefnd eru á ensku Reduced Space Symbology (RSS) og hins vegar samsett merki sem á ensku kallast Composite Symbology.

„Reduced Space Symbology", er ný gerð línulegra strikamerkja sem hentar til að auðkenna mjög litlar einingar, og tekur mun minna pláss en hefðbundin merki. Þau leysa þörf þeirra sem þurfa að merkja mjög smáar einingar með strikamerkjum.

„Composite Symbology", eða samsett merki, er tækni sem gerir mögulegt að skrá mun meira af upplýsingum í strikamerki en hægt hefur verið til þessa, og er að auki ekki eins plássfrekt. Það sem á myndinni er nefndur tvívíður hluti merkisins getur ekki staðið einn og sér heldur er alltaf viðbót, annaðhvort við hefðbundið strikamerki eða merkið sem er á efri myndinni (RSS stacked).

Grunnhugmynd tvívíða merkisins er að tengja saman hefðbundin strikamerki, línu fyrir línu, með því að skrifa einstök strikamerki hvert ofan á annað. Til að tryggja öruggan aflestur sem best, er ákveðin prófunartækni innbyggð í merkið, og þannig mögulegt að lesa upplýsingarnar jafnvel þó hluta merkisins vanti. Þannig kemur nafngiftin til, haldið er utan um upplýsingarnar á tvo vegu. Þetta merki gefur til dæmis aukna möguleika á notkun EAN - 128 kerfisins.